Tvískinnungur Vinstri grænna í umhverfismálum

GETUR verið að Vinstri græn hafi aðra stefnu í umhverfismálum eftir því hvort þeir eru í minnihluta- eða meirihlutasamstarfi? Í minnihluta krefjast þeir að fyrirhugaðar framkvæmdir fari í umhverfismat en í meirihluta dugar huglægt mat fulltrúa þeirra.

Allavega virðist svo vera í Mosfellsbæ þar sem VG myndar meirihluta með Sjálfstæðisflokki. Töluverð umræða hefur verið í fjölmiðlum að undanförnu í sambandi við tengibraut sem leggja á að fyrirhuguðu Helgafellshverfi í Mosfellsbæ nokkrum metrum frá Álafosskvosinni.

Mikil andstaða er meðal bæjarbúa við legu tengibrautarinnar og hafa bæði einstaklingar og Varmársamtökin í Mosfellsbæ ítrekað bent á að tengibrautin muni hafa skaðleg áhrif á umhverfi Varmár og Álafosskvosarinnar, enda er Varmáin á náttúruminjaskrá og ósar Varmárinnar friðaðir. Það merkilega er að fulltrúar Vinstri grænna í Mosfellsbæ vissu ekki síðastliðið haust að ósar Varmárinnar væru friðlýstir og að Varmáin væri á náttúruminjaskrá; því neitaði fulltrúi þeirra í skipulags- og byggingarnefnd í grein í Morgunblaðinu 23. september 2006 og einnig bæjarfulltrúi þeirra í grein í Morgunblaðinu 26. september 2006!

Fyrir síðustu sveitastjórnarkosningar var VG á móti lagningu tengibrautarinnar á þessum stað og töluðu gegn henni í kosningabaráttunni en skiptu um skoðun eftir að hafa komist í meirihluta með Sjálfstæðisflokknum eftir kosningar. Þeir segjast í þessu máli taka ábyrga afstöðu, var þá afstaða þeirra óábyrg fyrir kosningar?

Vinstri græn vildu ekki setja framkvæmdina í umhverfismat og hafa aðallega svarað gagnrýni þannig að gert hafi verið ráð fyrir tengibraut á þessum stað í aðalskipulagi frá 1983 og að málið hafi verið of langt komið eftir kosningar til að þeir gætu breytt legu tengibrautarinnar. Sem er rangt því deiliskipulagið var samþykkt í bæjarstjórn í 13. desember á síðasta ári, en þá hafði VG verið í meirihluta í hálft ár. Vinstri græn hafa aldrei, frekar en félagar þeirra í meirihluta, léð máls á því að aðrir möguleikar á lagningu tengibrautar væru kannaðir af einhverri alvöru. Enda væri skrýtið ef aldrei mætti breyta aðalskipulagi.

Fyrst eftir að málið komst í hámæli í fjölmiðlum héldu margir félagar í VG að Vinstri græn í Mosfellsbæ gætu komið í veg fyrir framkvæmdina, meðal annarra Hlynur Hallsson varaþingmaður VG! Það virtist koma mörgum þeirra á óvart að VG stóðu að framkvæmdinni með Sjálfstæðisflokknum.

Síðan á eftir að leggja tengibraut yfir Varmána rétt fyrir ofan Varmárósa til að tengja nýja hverfið í Leirvogstungu við Mosfellsbæ. Samfylkingin lagði til í ágúst á síðasta ári að sú framkvæmd færi í umhverfismat en því hafnaði meirihlutinn, sem er mjög skrítið, í ljósi þess að Vinstri græn tala um að náttúran eigi að njóta vafans og setja eigi framkvæmdir stórar eða smáar sem gætu haft neikvæð áhrif á náttúruna í umhverfismat!

Vinstri græn telja sig nánast hafa einkarétt á umhverfismálum en fleiri dæmi eru um ótrúverðugleika þeirra í þessum málaflokki, t.d. samþykktu þeir í stjórn Orkuveitunnar samning við Alcan vegna stækkunar álversins í Straumsvík.

Þeir kveinka sér líka undan gagnrýni á ákvarðanir sínar í þessum málum enda virðist stefna flokksins sett til hliðar ef taka þarf "ábyrga" afstöðu. Er þá hægt að treysta Vinstri grænum í umhverfismálum ef þeir komast í meirihluta að loknum alþingiskosningum?

Höfundur er varaformaður Samfylkingarinnar í Mosfellsbæ.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband